Um loftgæði og viðbrögð í Aðalþingi

Á undanförnum vikum hefur loftmengandi gasefnið brennisteinsdíoxíð SO2 borist frá eldstöðinni í Holuhrauni norðan Vatnajökuls til íbúa í mörgum sveitarfélögum og hefur styrkur efnisins stundum verið svo mikill að mælt er með mjög afgerandi varnaraðgerðum, svo sem að halda sig innandyra, loka öllum gluggum, hækka hitastig innanhúss o.þ.h.

Í Aðalþingi fylgjumst við með loftgæðaspá á vef Veðurstofu og ef spáin gefur tilefni til skoðum við gildi á sjálfvirkum mælistöðvum í nágrenni við okkur oft á dag. Á vefsíðum þeirra sem reka mælistöðvarnar má sjá raunmælingar á tíu mínútna fresti.

Sveitarfélagið hefur sent til okkar almennt upplýsingaplagg sem tekið er saman af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar kemur m.a. fram að ef loftmengun verður óviðunandi á tilteknu svæði má búast við að almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, landlæknisembættið og fleiri opinberir aðilar gefi út viðvaranir.

Almennar ábendingar um að halda börnum innan dyra, loka gluggum og hækka hitastig innanhúss þegar loftmengun er mikil kunna að eiga vel við íbúðahús og heimili fólks. Í Aðalþingi er hinsvegar öflugt loftræstikerfi sem dregur útiloftið inn með mjög skilvirkum hætti. Loftræstikerfið er mikilvægt vegna þess að í skólanum eru að jafnaði 150 einstaklingar saman komnir þegar starfsemi er í húsinu.

Úrræði leikskólans eru því ekki mikil ef loftmengun verður mikil og gefin verður út viðvörun vegna mikils magns af brennisteinsdíoxíði í andrúmslofti. Það er mikilvægt að foreldrar séu upplýstir um þetta og séu viðbúnir því að meta sjálfir til hvaða ráðstafana er best að grípa varðandi börnin sín.

 

 


Svæði

Fyrirspurnir

Leikskólinn Aðalþing  |  Aðalþingi 2  |  203 Kópvogur  |  S. 5150930  |  adalthing@adalthing.is Aðalþing á Facebook