Kladdar út - Vala inn

Pappírskladdarnir sem notaðir hafa verið í Aðalþingi frá upphafi eru ekki lengur í notkun. Frá og með þessari viku eru kladdarnir og Mentor úti í kuldanum en gagnagrunnurinn Vala er tekin við.

Ástæðan er að Kópavogsbær kaus að taka nýtt innritunarkerfi í gagnið og það er Vala. Vala sameinar fjölmarga eiginleika eldri kerfa og býr að mörgum nýjum.

En fátt er svo með öllu gott... núna kvitta foreldrar ekki lengur sjálfir fyrir því að barnið er sótt. Starfsmenn skrá það í snjalltæki. Við höfum óskað eftir að við Völu verði skrifuð viðbót sem veitir foreldrum tækifæri til skrá barn út með sínum eigin kóða og aðstandendur sem hafa heimild til að sækja barnið gætu þá einnig fengið slíkan kóða. Að hafa skráð hver sækir barnið finnst okkur mikilvæg öryggisaðgerð. Vonandi verður fljótt orðið við þessum hugmyndum okkar.

Tengt Völu er foreldraapp sem við hvetjum foreldra til að hlaða niður í tækin ykkar. Appið gefur kost á gagnkvæmu upplýsingaflæði og við erum spennt fyrir að sjá hvernig það muni nýtast.

Foreldrar geta ekki sjálfir breytt símanúmerum sínum og netföngum í Völu eins og hægt er í Mentor. Verði breytingar hvað þetta varðar skrá foreldrar nú nýjar upplýsingar inn á nýtt form á vefsíðu Aðalþings og starfsfólk skólans vistar þær í Völu.

Að lokum:
Þegar foreldrar sækja börnin úti síðdegis, skrá starfsmenn börnin út í snjalltækjunum sínum. Starfsfólkið okkar er frábært en hefur núna áhyggjur af því að foreldrar haldi kannski að þau séu að hanga á Facebook þegar þau eru svona mikið með símana eða önnur snjalltæki í útiveru. Það er auðvitað alls ekki þannig.


Svæði

Fyrirspurnir

Leikskólinn Aðalþing  |  Aðalþingi 2  |  203 Kópvogur  |  S. 5150930  |  adalthing@adalthing.is Aðalþing á Facebook