Góður matur er mannréttindi, ekki forréttindi. Terra Madre dagurinn í Aðalþingi

Góður matur er mannréttindi, ekki forréttindi. Terra Madre dagurinn í Aðalþingi
Terra Madre dagurinn - Móðir jörð 10. desember

Hluti af matarmenningu Aðalþings hefur alla tíð verið samofin hugmyndafræði Slow Food samtakanna sem við erum aðilar að. Þann 10. desember 1989, fyrir 25 árum síðan, voru Slow Food samtökin stofnuð formlega í Bra á Ítalíu.

 

Terra Madre, sem þýðir móðir jörð, hefur verið heitið á samkomu matarsamfélaga víðsvegar í heiminum. Þessi matarsamfélög (food communities), kokkar, smáframleiðendur, ungt fólk, bændur, fiskimenn, fræðimenn og neytendur, halda á lofti matvælaframleiðslu sem fer eftir gildum Slow Food hreyfingarinnar: maturinn á að vera góður, hreinn og sanngjarn – og koma úr héraði. Góður matur er mannréttindi, ekki forréttindi.

Á hverju ári er Terra Madre dagurinn haldinn hátíðlegur um allan heim og þeir sem áhuga hafa taka þátt: koma saman og borða góðan mat úr eigin héraði, efna til bændamarkaða með mat úr héraði – eða hvað sem fólki dettur í hug.

Aðalþing tekur þátt í Terra Madre deginum að þessu sinni með því að hafa kjötsúpu á boðstólum fyrir börnin. Auk lambakjötsins verður m.a. í súpunni rófur, bygg og kartöflur frá Eygló og Eymundi í Vallanesi. Í síðdegishressingunni höfum við nýbakað brauð að vanda og með því verður heimagerður ricottaostur og rauðrófuhummus að hætti hússins, en rauðrófurnar eru ættaðar úr Vallanesi eins og megnið að grænmetinu sem við bjóðum upp á dags daglega.

Eins og áður er Aðalþing eini íslenski leikskólinn sem fagnar Terra Madre deginum, en það mun breytast. Mikill metnaður er nú víða lagður í að bæta skólamat á Íslandi, við fögnum því vegna þess að góður matur er mannréttindi, ekki forréttindi.

Og vorum við búin að nefna það - góður matur er mannréttindi, ekki forréttindi?


Svæði

Fyrirspurnir

Leikskólinn Aðalþing  |  Aðalþingi 2  |  203 Kópvogur  |  S. 5150930  |  adalthing@adalthing.is Aðalþing á Facebook