Aðalþing hlýtur Íslensku Menntaverðlaunin 2021 fyrir framúrskarandi skólastarf og lýðræðislega starfshætti

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti í dag að Leikskólinn Aðalþing hafi hlotið Íslensku menntaverðlaunin 2021, en skólinn var tilnefndur fyrir framsækið, skapandi skólastarf og lýðræðislega starfshætti. Guðni afhenti skólanum verðlaunagrip og viðurkenningarskjöld við þetta tækifæri.

Guðrún Alda Harðardóttir sem rekur leikskólann Aðalþing ásamt Sigurði Þór Salvarssyni sagði af þessu tilefni "Það er okkur mikill heiður að fá þessi verðlaun og þau eru viðurkenning fyrir mikilvægi leikskólastarfs í landinu. Það felast verðmæti í að samfélagið kunni að meta gott skólastarf. Skólinn okkar er eins og hann er vegna metnaðafulls starfsfólks og lýðræðislegra vinnubragða." 

Í tilkynningunni frá Íslensku menntaverðlaununum segir meðal annars. "Starfið á Aðalþingi hefur vakið athygli á landsvísu og út fyrir landsteinana..."

Hörður Svavarsson skólastjóri sagði við fréttamenn RÚV við verðlaunaafhendinguna
"Það er auðvitað skrítið að vinna keppni í uppeldisfræði, svipað eins og að sigra í læknisfræði, botnlangaskurði eða hálskirtlatöku. En svo er það auðvitað ekkert skrítnara heldur en vinna bókmenntaverðlaun eða kvikmyndaverðlaun.

Og starfsfólkið í Aðalþingi hefur sannarlega verið að keppast við í 13 ár að búa til góðan skóla, því börn hafa engan tíma, þau eldast bara og fara frá okkur – þau þurfa að fá góðan skóla strax.

Markmið okkar hefur verið að börnin séu glaðir, hamingjusamir og frjálsir einstaklingar, því þá eru þeir í stakk búnir til að læra... og það er gaman að eftir því hefur verið tekið.

Skólinn okkar er svona af því hann er rekinn af leikskólakennurum og stýrt af kennurum og vonandi eru þessi verðlaun ávísun á að við fáum að halda því áfram.

Eða eins og skáldið sagði: Meira pönk og meiri hamingja."

Forseti Íslands stofnaði til Íslensku menntaverðlaunanna en þau eru samstarfsverkefni fjölmargra aðila. Fjölmenn akdemía tekur við innsendum tilnefningum og valdi úr þrjá skóla sem njóta formlegrar tilnefningar.  Í umsögnum sem Menntaverðlaununum bárust sagði meðal annar.

"Eitt af því sem hefur verið þróað í Aðalþingi er viðhorf til nýbreytni og aðferðir til að innleiða breytingar sem auðvitað speglast í öllum þeim verkefnum sem þar hafa verið unnin og þróuð síðustu ár. Það sem mér finnst líka afar merkilegt er að leikskólinn er núna á sínu 13 starfsári og enn er verið að taka ný stökk, prófa nýjar hugmyndir. Að mínu mati er í leikskólanum afar virkt lærdómssamfélag þar sem kennarar eru óhræddir við að koma fram með og ræða nýjar hugmyndir og vinnubrögð. Það hefur tekist að skapa frumkvöðlaandrúmsloft sem byggist á trausti og velvild."

"Í Aðalþingi er markmiðið að leikskólastarfið þróist í samræmi við nýjar kenningar, rannsóknir og styrk mannauðs skólans. Eitt meginmarkmið skólastarfsins er að sérhvert barn fái bestu umönnun og kennslu sem völ er á. Í upphafi skólagöngu hvers barns er foreldrum kynnt þessi markmið og þau hvött til að gera athugasemdir ef þeir telja skólastarfið ekki standa undir markmiðinu. Mikilvægt hlutverk Aðalþings er að skapa börnunum sem þar eru fjölbreytt námstækifæri. Í skólanum er lögð áhersla á að hvert barn fái tækifæri til að styrkja hugmyndir sínar um sjálft sig, fái trú á og efli eigin getu …."


Svæði

Fyrirspurnir

Leikskólinn Aðalþing  |  Aðalþingi 2  |  203 Kópvogur  |  S. 5150930  |  adalthing@adalthing.is Aðalþing á Facebook