Um aðlögun í Aðalþingi

Þegar barn byrjar í leikskóla er það stór stund í lífi bæði þess og foreldranna. Fyrir margar fjölskyldur eru þetta tímamót sem krefjast breytinga á högum þeirra og valda streitu. Til að auðvelda aðallega börnum en líka foreldrum og starfsfólki umskiptin, hefur í gegnum tíðina tíðkast að setja upp sérstakt skipulag í leikskólum, sem gengur undir nafninu aðlögun. 

Í dag er ríkjandi hugmynd innan leikskólafræðanna að leikskólinn sé ekki staðgengill heimilisins og starfsfólk þar af leiðandi ekki staðgenglar foreldra. Leikskólinn er samfélag þar sem fullorðnir og börn byggja upp þekkingu saman, staður námstækifæra. Barnið tekur virkan þátt í að móta umhverfi sitt og þekkingu. Í þeim anda er þátttökuaðlögun. Hún byggist á því að ekki sé verið að venja barnið við að vera skilið eftir í leikskólanum, heldur sé það að læra að vera í nýjum aðstæðum. Aðlögunin byggir á fullri þátttöku foreldranna í starfi leikskólans þá daga sem hún á sér stað.

Þátttökuaðlögun

Við þátttökuaðlögun er tiltekinn dagur upphafsdagur leikskólans og þann dag mæta flestir foreldrar og börn sem eiga að byrja á sömu deild, saman í leikskólann. Algengt er að fundað sé með foreldrum eða þeim kynnt aðlögunin á annan hátt og þeir búnir undir það sem framundan er. Fyrirkomulagið er að foreldrar eru með börnunum í þrjá daga að jafnaði frá níu og fram yfir hádegismat.

Foreldrarnir eru inni á deild með börnum allan tímann (nema þegar þau sofa). Foreldrar sinna eigin börnum, skipta á þeim, gefa þeim að borða, leika með þeim og eru til staðar. Starfsfólkið tekur að sjálfsögðu líka þátt, skipuleggur daginn, deilir út verkefnum (og skráir).

Þegar nokkur börn byrja samtímis eru fyrirlestrar fyrir foreldra í hádeginu, þar sem skólastarf og hugmyndafræði eru kynnt. Á fjórða degi koma börnin um morguninn, kveðja foreldrana og eru svo allan daginn. Einstaka börn hafa foreldra sína með sér í fjóra daga en reynslan sýnir að þau eru fá. Auðvitað verða foreldrar að vera viðbúnir að stytta daga barnanna er þörf er á.

Kostir þátttökuaðlögunnar
Þátttökuaðlögun byggist m.a. á þeirri trú að foreldrar smiti eigin öryggiskennd, forvitni og spennu yfir þessum nýj aðstæðum til barna sinna. Með því að foreldrar séu fullir þátttakendur frá fyrsta degi öðlist þeir öryggi um dagskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum, þeir sjái starfsfólk í verki. Þeir kynnast ekki bara starfsfólki heldur öðrum börnum, foreldrum og því sem á sér stað í leikskólanum. Það er jafnframt talinn kostur við nýja formið að foreldrar tengjast og milli þeirra skapast oft vinskapur. 

Meðal kosta sem leikskólakennarar sjá við þátttökuaðlögunina er að það skapast meiri nánd við foreldrana. „Þeir væru ekki í hlutverki gesta", „þeir væru heimavanir í leikskólanum".

Svæði

Fyrirspurnir

Leikskólinn Aðalþing  |  Aðalþingi 2  |  203 Kópvogur  |  S. 5150930  |  adalthing@adalthing.is Aðalþing á Facebook