Hreyfing í Aðalþingi

Aðalnámskrá leikskóla er meðal annars fjallað um heilbrigði og velferð og þar segir þetta um hreyfingu:

"Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra."

"Í skóla, sem leggur áherslu á daglega hreyfingu og markvisst hreyfiuppeldi, er lagður grunnur að líkamlegri, andlegri og félagslegri velferð til lífstíðar. Veita þarf fræðslu um hreyfingu, efla hreyfifærni og skapa öruggt umhverfi sem hvetur alla til hreyfingar. Taka þarf mið af þessu í íþróttakennslu og öllu öðru skólastarfi."
 

Íþróttir í Kórnum

Við höfum nú fengið aðstöðu í Kórnum að nýju en þangað til í fyrra nutum við þess að geta farið með börnin úr Aðalþingi í skipulagt íþróttastarf í þessu glæsilega íþróttahúsi sem Kópavogsbær á..

Aukin hreyfing sem hæfir aldri og áhugasviði barnanna getur haft jákvæð áhrif á líðan, þroska, hreyfigetu, svefn og úthald barna. Það er mikilvægt fyrir börn að hafa gott aðgengi að hreyfingu. Með tímunum í Kórnum fá börnin aukið tækifæri til að stunda hreyfingu, kynnast ýmsum íþróttagreinum og fá útrás. Markmiðið er að hafa tímana fjölbreytta, lærdómsríka en fyrst og fremst skemmtilega.

Við höfum aðgang að Kórnum tvisvar í viku klukkutíma í senn á þriðjudags og fimmtudagsmorgnum. Fram að þessu hafa börnin af tveimur elstu þingunum farið í Kórinn en þegar lengra líður á skólaárið munu yngri börnin væntanlega fara þangað líka.

Það er Harpa Þorsteinsdóttir verkefnastjóri á Hrafnaþingi sem heldur utan um og skipuleggur starfið í Kórnum en hún er uppeldisfræðingur, íþróttakona og er að verða meistari í lýðheilsufræðum.
 

Barnajóga

Á miðvikudags- og föstudagsmorgnum verður börnunum á Hrafnaþingi boðið í litlum hópum í jóga í matstofunni okkar. Meiningin er að hvert barn geti komið í jóga a.m.k. vikulega.

Í barnajóga er áherslan á leik og gleði. Börnin læra ýmsar jógastöður og æfingar sem styrkja jafnvægi, einbeitingu og samhæfingu. Þau læra einfaldar öndunaræfingar, möntrur og slökun. Börnin læra samvinnu og að bera virðingu fyrir sér og öðrum.

Orðið jóga þýðir heild eða sameining og er mannræktarkerfi sem miðar að þroska líkama, hugar og sálar.

Það er Herdís Ágústa viðbótarkennslustjóri sem heldur utan um þetta verkefni. Herdís er leikskólakennari að mennt og lærður jógakennari.

Svæði

Fyrirspurnir

Leikskólinn Aðalþing  |  Aðalþingi 2  |  203 Kópvogur  |  S. 5150930  |  adalthing@adalthing.is Aðalþing á Facebook