Beiðni um færri lokanir vegna skipulagsdaga

Það er gaman að segja frá því að fyrir Leikskólanefnd Kópavogs liggur núna beiðni frá Aðalþingi um að fækka skipulagsdögum á næsta skólaári. Leikskólanefnd var sent erindi þann 14. apríl síðastliðinn og verður það væntanlega tekið fyrir öðru sinni á fundi nefndarinnar á morgun. Í erindi okkar segir m.a:

"Foreldrar og starfsfólk Aðalþings hafa haldið áfram þróunarstarfi sínu hvað skipulagsdaga varðar og við höfum áttað okkur á því að það fyrirkomulag að draga úr þjónustu og loka fyrir þjónustu til að hægt sé að skipuleggja hana er e.t.v. barn síns tíma. Engri starfsemi í nútímaþjóðfélagi er þannig fyrir komið að leggja þurfi þjónustu niður meðan hún er skipulögð. Þetta tíðkast ekki í heilbrigðisþjónustu, ekki í ferðaþjónustu eða nokkurri annarri almannaþjónustu. Kannski er komið að því að rekstraraðilar þurfi að hagræða með öðrum hætti og gefa kost á skipulagsvinnu utan hefðbundins þjónustutíma. Í Aðalþingi viljum við nú stíga skref í þá átt og fækka skipulagsdögum."

"Með hliðsjón af ofangreindu leggja foreldraráð Aðalþings, stjórnendur og rekstraraðilar fram eftirfarandi þrjár tillögur:

  • 1. Óskað er eftir að skipulagsdagar haustannar í Aðalþingi verði milli jóla og nýárs, nánar tiltekið 29. og 30. desember (opið verði 28. desember).
  • 2.Óskað er eftir að tveir skipulagsdagar liggi að sumardeginum fyrsta þann 21. apríl 2016 vegna náms- og kynnisferðar starfsmanna.
  • 3. Ef ofangreindar tillögur verða samþykktar óskum við eftir að skipulagsdagar verið einungis fjórir næsta skólaár enda eru rekstraraðilar tilbúnir að koma því svo fyrir að starfsmannafundir verði haldnir utan hefðbundins þjónustutíma leikskólans."

 

Við gerum ráð fyrir að erindið fái jákvæða meðferð hjá Leikskólanefnd og verði afgreitt á fundinum á morgun.

 


Svæði

Fyrirspurnir

Leikskólinn Aðalþing  |  Aðalþingi 2  |  203 Kópvogur  |  S. 5150930  |  adalthing@adalthing.is Aðalþing á Facebook